Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Ættarmót á Hellissandi 25-27 júlí

Til að skrá sig inn: Notandi: Olafsbjorg og lykilorð: Framnes

Nefndinni er sönn ánægja að staðfesta að ættarmótið verður haldið á Hellissandi 25-27 júli nk.

Hellissandur skipar stóran sess í sögunni og býður upp á alla þá aðstöðu sem þarf til að halda stórt ættarmót. Þar er gott tjaldsvæði, hótel, félagsheimili og sagan allt í kring. 

Búið er að bóka Hótel Hellissand bæði á föstudags og laugardagskvöld. Þeir sem hafa áhuga á því að gista á Hótelinu þurfa að hringja í síma 430-8600 og bóka gistingu í nafni ættarmótsins. Aðeins 19 herbergi eru í boði og því gildir fyrstur kemur, fyrstur fær. Þeir sem bóka gistingu á hótelinu verða að bóka gistingu bæði á föstudag og laugardag. Nóttinn kostar kr. 12.900 m. morgunmat. Ef þeir sem bóka hyggjast aðeins gista á laugardag mun hótelhaldarinn reyna að áframselja föstudagsnóttina. Ef það tekst ekki verður að greiða gistingu í tvær nætur, jafvel þó önnur er aðeins nýtt. Það er því um að gera að taka helgina snemma og sleppa úr klóm borgarinnar í afslöppun í sveitinni. -Nánari upplýsingar um Hótel Hellissand er að finna neðst í þessum pósti.

Milli tjaldsvæðiðins og hótelsins eru aðeins nokkrir metrar. Sami aðili rekur Hótelið, tjaldsvæðið og félagsheimilið Röst. Hann hefur boðist til að útvega tjaldgestum morgunmat á kr. 500- ef áhugi er fyrir því. Þá hefur hann einnig boðið að slá upp veislu í félagsheimilinu sem byggir á 3 rétta máltið á kr. 3.100- á mann. Börn yngri en 11 ára borða frítt. -Við könnun áhuga nánar síðar.

 Nú er um að gera að skrá þáttakendur á  ættarmótinu í gestabókina (hnappur hér til hliðar).  Eða skrá athugasemdir eða svör við þessari færslu myndir eða annað áhugavert. Munið líka að láta upplýsingar um þessa síðu ganga áfram.

Aðstaða á Hótel Hellissandi

http://www.hotelhellissandur.is/

Herbergin eru öll tveggjamanna, 21 fm, með sjónvarpi, útvarpi og útvarpsvekjara (í sjónvarpi) síma, hárþurrku og sér baðherbergi. Eitt herbergi er sérstaklega útbúið fyrir aðgengi hjólastóla. Ráðstefnusalurinn er i félagsheimilinu Röst, staðsettu hinumegin við götuna frá hótelinu. Þar er hægt að vera með allt að 100 manna fundi. Einnig er hægt að nýta veitingasal hótelsins með því að skipta honum upp og hentar það vel fyrir minni hópa fyrir t.d. vinnufundi og ráðstefnur fyrir ca. 10-30 manns.

 Um Hellissand

Hellissandur

Hellissandur er lítill bær sem er yst á norðanverðu Snæfellsnesi. Útsýnið til Snæfellsjökuls annarsvegar og síðan suðurhluta Vestfjarða er einstakt.

Hér við Hellissand sátu valdsmenn um aldir, sýslumenn, lögmenn og umboðsmenn konungs. Fyrsta saga um fiskveiðar er í Bárðarsögu sem gerist á utanverðu Snæfellsnesi. Talið er að fyrst hafi myndast þéttbýli á Íslandi hér á Hellissandi og um tíma var Hellissandur fjölmennari byggð en Reykjavík. Þannig segja má að Hellissandur sé hin gamla höfuðborg Íslands. Snæfellsjökull blasir við í byggðunum Hellissandur/Rif, og eru það einu þéttbýlisstaðirnir á Snæfellsnesi þar sem þess útsýnis nýtur við. Örfá skref frá hótelinu er sjóminjasafn þar sem kynnast má lífi og starfi íbúa hér í gegnum aldirnar. Einnig er þar skógræktarreitur sem er alveg einstakur.

Margir koma hingað til til þess að skoða Þjóðgarðinn Snæfellsjökul, hægt er að fá leiðsögn um helstu merkisstaði.
Farið er í rútu/einkabíl um svæðið og lýst því sem markvert er og saga byggðanna sögð. Í Rifi var verslunarstaður til forna og allt fram á átjándu öld, fyrstu sagnir um verslun og skipakomur þar eru í Eyrbyggju. Þaðan var mikið útræði og margar verbúðir. Mikil átök áttu sér stað um viðskipti í Rifshöfn þar kom til átaka milli enskra kaupmanna og danska konungsvaldsins árið 1467 þegar að Björn Þorleifsson umboðsmaður konungs var veginn þar af Englendingum. Minjar um þann atburð er Björnssteinn í Rifi. Áin Hólmkela rann til sjávar um Rifsós. Í upphafi átjándu aldar breytir hún um farveg og brýtur sér leiða til sjávar í gegnum Harðakamp. Þá berst sandur í fyrri farveg árinnar og þar með lokast Rifshöfn fyrir stærri skipum.

Nú er mikið um að vera í Rifi, góð höfn og uppbygging.

Á Gufuskálum er 412 metra hátt mastur sem reist var um miðja síðustu öld. Í dag þjónar það því hlutverki að útvarpa RUV á langbylgju.

Hér er verslunin Blómsturvellir sem er með ótrúlegt úrval gjafavöru, fatnaði og margt fleira. Í Rifi er verslunin Virkið sem selur allar helstu vörur sem þarfnast er á ferðalögum. Einnig er matvöruverslunin Hraðbúðin á Hellissandi.

 

Sjáumst hress. Nefndin


Hótel Hellissandur í athugun

Sæl Öll,

Verið er að kanna möguleikann á því að hafa ættarmótið á Hellissandi. Hugmyndir eru uppi um að leigja Hótel Hellissand bæði föstudag og laugardag. Það fæst ekki öðruvísi en að takist að koma hóp sem bókaður er þar á laugardag í gistingu annarsstaðar. Samkvæmt samtali við Hótelstjórann er hann bjartsýnn á að það takist og er kominn í 80% á bjartsýnisskalanum.

Það er ljóst að aðstaðan á Hellissandi er að mörgu leiti ákjósanlegri en á Görðum og því vonumst við til að hægt sé að staðfesta hótelið núna á miðvikudag.

 nefndin.


Ættarmót

Til að skrá sig inn: Notandi: Olafsbjorg og lykilorð: Framnes

Kæra fjölskylda.

Skipulagsnefnd hefur nú loks tekið til starfa við að undirbúa ættarmót okkar á Snæfellsnesi vikuna fyrir Verslunarmannahelgi.

Við staðarval er gott að hafa í huga að finna svæði sem býður jafnt upp á gistingu í uppábúnum rúmum sem góða tjald- og fellihýsaaðstöðu. Fyrir tveim árum síðan hittumst við á Görðum og þótti sú aðstaða reynast vel, en falleg fjara er á svæðinu, golfvöllur og mikið rými til að koma upp tjöldum eða fellihýsum. Langlíklegast er að Garðar verði aftur fyrir valinu að þessu sinni og reynt að huga betur að sameiginlegum þjónustuþáttum. Á teikniborðinu er hugmynd um að leigja stórt samkomutjald sem gæti orðið miðdepill samveru á svæðinu.

Hugmyndin með þessari blogsíðu er að skiptast á hugmyndum og upplýsingum um ættarmótið. Reglulega verða settar inn upplýsingar um framgang mála, myndir og hvað annað sem skiptir máli.

Að lokum hvetjum við ykkur til að setja inn gamlar myndir frá fyrri ættarmótum og setja inn áhugaverðar færslur.

Nefndin: Ingólfur, Anna, Sturlaugur, Árni Hinrik, Jóhannes


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband