Ættarmótið 2005

Blað, sem dreift var á ættarmótinu 2005:

„Niðjamót Bjargar Guðmundsdóttur og Ólafs Jóhannessonar frá Stóru Hellu, Hellissandi, 15. til 17. júlí 2005   

Upplýsingar fyrir þá, sem fara í ferð frá Görðum til Hellissands, laugardaginn 16. júlí. Ef farið er um Fróðárheiði er leiðin 43 km.

Frá Hellissandi hefur sjór verið sóttur frá fyrstu öldum byggðar á Íslandi. Skammt undan landi eru fengsæl fiskimið. Ströndin er hins vegar hömrum girt og því erfitt að lenda bátum á henni. Bátar lentu á tveimur stöðum við Hellissand; í Keflavík og í Brekknalendingu. Í byrjun 20. aldarinnar var gerð höfn í Krossavík við Hellissand, sem notuð var fram yfir miðja öldina þegar hún lagðist af.

Talið er að ein fyrsta þéttbýlismyndum á Íslandi hafi verið á Hellissandi enda sótti fólk þangað víða að til sjósóknar.

Á utanverðu Snæfellsnesi eru núna þrjár hafnir; í Ólafsvík, í Rifi og á Arnarstapa.

Niðjar Bjargar Guðmundsdóttur og (Kristófers) Ólafs Jóhannessonar, frá Stóru Hellu, Hellissandi, tengjast Keflavík, Brekknalendingu og Krossavík.  

Keflavík

Guðmundur Hákonarson, faðir Bjargar, var formaður á bát sínum „Rauðseyingi". Einn háseta hans var Dagóbert Hansson, tengdasonur hans. Hinn 9. febrúar 1909 hætti Guðmundur við að róa á bát sínum en þess í stað fóru þeir í róður á öðrum bát. Alls fóru 9 menn í þann róður.

Þegar leið á daginn skall á norðanveður með miklum sjó. Þegar lent var í Keflavík skall báturinn á „Höfðinu", kletti austanmegin í Keflavíkurlendingu. Allir 9 mennirnir fórust fyrir augum eiginkvenna sinna og barna, sem stóðu í fjörunni og gátu ekkert gert til hjálpar.

Eitt þeirra barna, sem horfði á föður sinn drukkna, var Björg Guðmundsdóttir.

Brekknalending

„Rauðseyingur" komst síðar í eigu Ólafs Jóhannessonar, tengdasonar Guðmundar Hákonarsonar. Ólafur gerði út frá Brekknalendingu. Í brekkunni vestanmegin í lendingunni var bátur Ólafs festur við hæl; báturinn var bókstaflega hengdur upp á hælinn. Til skammst tíma mátti sjá hælinn - og má ef til vill enn. Ólafur Jóhannesson byggði skemmu við Brekknalendinu.    

Krossavík

Þegar mótórbátar komu til sögunnar í byrjun 20. aldar gerðu Sandarar höfn í Krossavík; Krossavíkurhöfn. Höfnin var hins vegar erfið og var hún ekki notuð nema í um 30 ár. Einn þeirra sem stóðu að hafnargerðinni var Ólafur Jóhannesson. Þaðan gerði hann út bát sinn „Skrauta". Við Krossavík er upplýsingaskilti með ljósmynd af bátum í höfninni, þar sem sjá má bátinn „Skrauta".

Í sjóminjagarðinum á Hellissandi eru geymdar vélar úr mótórbátum. Ein þeirra er úr „Skrauta" (sú er stendur lengst til vinstri af þeim sjö sem standa úti í garðinum).

Ingjaldshólskirkja

Í kirkjunni á Ingjaldshóli hangir uppi sextánarma ljósahjálmur úr kopar. Um hann segir í vísitasíu biskups 31. júlí 1958: „ ... gjöf frá Ólafi Jóhannessyni fisksala í Reykjavík og konu hans, Björgu Guðmundsdóttur, gefinn 1953 en kemur í kirkjuna 1954." Vísitasía biskups er góð heimild um gjöfina en í kirkjuna sjálfa vantar skjöld með áletrun um gjöfina.  

Björgunarsveitin Björg Hellissandi

Á Hellissandi starfar „Björgunarsveitin Björg". Hún var stofnuð á árið 1928. Einn af stofnendum hennar og fyrsti formaður var Ólafur Jóhannesson. Nafn björgunarsveitarinnar er nafn Bjargar Guðmundsdóttur, eiginkonu Ólafs Jóhannessonar.

Haldið var upp á 70 ára afmæli „Björgunarsveitiarinnar Bjargar" á Hellissandi 13. desember 1998 á dánardegi Ólafs Jóhannessonar árið 1955. Viðstödd voru Anna Margrét, dóttir Ólafs, og Ólafur Kristófer Ólafsson, dóttursonur Ólafs Jóhannessonar.“

ÓKÓ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband