Frásögn af sjóslysinu í Keflavíkurlendingu 9. febrúar 1909

Í kaflanum, sem hér fer á eftir, segir frá því þegar Guðmundur Hákonarson og Dagóbert Hansson drukknuðu í Keflavíkurlendingu 1909, ásamt sjö öðrum sjómönnum.

Björg amma sagði mér frá því þegar hún horfði á pabba sinn drukkna þarna, nánast handarlengd frá öllu fólkinu, sem horfði á - en gat ekkert gert. Ég skildi frásögn ömmu ekki til fulls fyrr en ég stóð í fyrsta sinn við Keflavíkurlendinguna og gerði mér grein fyrir aðstæðum. Keflavíkurlendingin sést ágætlega á myndinni hér á síðunni - en maður gerir sér ekki grein fyrir aðstæðum nema standa við lendinguna.

„Drukknun Lofts Loftssonar.

Hinn 9. febrúar 1909 fórst Lofur Loftsson formaður úr Keflavík með öllum mönnum sínum, 9 manns. Norðanveður skall á með miklum sjó, en vestan undirsjór á móti og veðurhæð mikil. Tveir formenn eru nefndir af þeim sem á sjó voru úr Keflavík þennan dag, og má segja, að legið hafi þar við tveim bátstöpum sama daginn.

Báðir bátarnir voru að koma af sjó. Fyrri báturinn var María frá Skáleyjum og var formaðurinn Sveinn Jónsson, sá sem veturinn áður hraktist inn að Hallbjarnareyri og náði þar nauðulega landi, og er fyrr frá sagt. Í Keflavík er lending mjög þrönd, svo að fyrir augum ókunnugra má það varla lending kalla. Klappir eru þar til beggja hliða, og innsiglingin mjög þröng, litlu meiri en bátsbreiddin. Áður fyrri var klöpp þvert yfir lendingu, sem Þröskuldur hét, en hefur nú verið sprengd í burtu að mestu. Austari klöppin er stærri og hærri og heitir Höfuð, en það var einmitt á því sem báðir þessir bátar steyttu. Auk þess er það mikill ókostur á lendingunni, hve langt brýtur fram í brimum, og er það allvarasamt.

Að þessu sinni var hásjávað og Höfuðið í kafi og braut á því. Meðan Sveinn Jónsson stýrði til lendingarinnar, beið Lofur frammi á legunni, því ókleyft er fyrir fleiri báta en einn að lenda þar í senn. Sveinn var öruggur stjórnari og ágætur sjómaður, en hér mátti engu skeika. Vestansjórinn ýfði norðan-báruna og gerði þannig miklu erfiðara fyrir. Fara varð þétt upp með Höfðinu til þess, að ekki bæri yfir á klappirnar að vestanverðu, en þær voru þá svo nærri sjórnborðs megin, að nálega mátti engu skeika. Tók nú Sveinn róðurinn. Í hálsi voru þeir Bergþór Einarsson úr Hvallátrum og Hafliði Pétursson frá Svefneyjum, sem reri á bakborða, hinn röskvasti maður. Renndi nú María upp að Höfðinu, en í því rann að öfugriða vestan frá og bar kinning bátsins upp að klöppinni. Þetta sá Hafliði. Vatt sér þegar út á Höfuðið og réði bátnum frá klöppinni, en stökk síðan upp í. Varð þetta knálega handtak til þess að bjarga skipi og skipshöfn úr bráðum voða.

Þegar Loftur lenti rétt á eftir, fór á sömu leið. Vestansjórinn vék bátnum úr réttri stefnu, svo að hann barst upp klettinn.  Brimróður í Keflavík var tekinn, þegar ,,dregið var út úr lónum", þ.e. þegar útsoginu var lokið eftir síðasta ólagið. En hér var enginn Hafliði Pétursson til að bjarga með snarræði sínu og hvolfdi bátnum ofan í lendinguna. Nú eru ekki nema fáir faðmar frá fjörunni og fram á Höfuðið, en nógu langt til þess, að engum mannanna tókst að bjarga. Bátur var settur fram, bólum var kastað til þeirra, en engum þeirra tókst að ná til þeirra, og voru þeir þó þarna í brimlöðrinu innan um þau. Loftur, formaðurinn, komst einn á kjölinn, en heldur ekki honum varð bjargað. Barst báturinn vestur á klappirnir vestan til við lendinguna, en þangað var hverjum bát ófært og úr landi varð engum vörnum við komið. - Þarna lét Loftur líf sitt fyrir augum þorpsbúa, sem flestir höfðu safnazt þarna, eins og negldir niður, dæmdir til að vera sjónarvottar þessa ömurlega harmleiks. Það er ægileg stund fyrir fólkið í litlu sjávarþorpi, þegar slík stórslys verða rétt við landsteinana og engum vörnum verður við komið, hendurnar máttvana, hugirnir ráðþrota, en ógnin og ofvænið halda augunum föstum við hinn voveiflega atburð eins og í dáleiðsludraumi.

Í sögu Hellissands hafa slík augnablik orðið mörg gegn um aldirnar, en þrátt fyrir það ótrúlega fá, þegar allar aðstæður eru athugaðar og þess gætt, hve fjölsóttar þessar verstöðvar foru, hve útbúnaður allur var frumstæður, lendingar hættulegar og aðalsjósóknin bundin við þá árstíð, sem jafnan er stórbrotnust að veðráttufari.

Loftur lét líf sitt án allrar æðru. Til hans heyrðist hvorki óp né andlátsstuna. ,,Þetta voru ægileg augnablik", sagði einn af sjónarvottunum, ,,maðurinn var svo nærri okkur, að við sáum augun í honum, en ekkert var hægt að gera".

Þeir, sem fórust voru þessir: Loftur Bergur Loftsson, Keflavík, kvæntur, 29 ára, Kristján Jónsson, Vörðufelli, ókvæntur, 30 ára, Guðmundur Hákonarson, ekkjumaður, Keflavík, 55 ára, Dagóbert Hansson, ekkjumaður, Keflavík 29 ára, Sigurður Magnússon, kvæntur, 23 ára, Kristján Guðmundsson, ókvæntur, Keflavík, 25 ára, Þorkell Guðbrandsson, ekkjumaður, Keflavík, 47 ára, Hjörtur Magnússon, Beruvík, ókvæntur, 20 ára, Guðjón Nikulásson, ókvæntur, Reykjavík, 23 ára. Lík allra þessara manna fundust og voru jörðuð á Ingjaldshóli, nema lík Guðjóns, það fannst ekki.

Eins og sést af þessari nafnaskrá, voru flestir þessara manna kornungir; var þetta því mjög tilfinnanlegt manntjón fyrir byggðarlagið. 

Sigurður og Hjörtur Magnússynir voru albræður, synir fátækrar ekkju þar í Keflavík, en Dagóbert hálfbróðir þeirra, einnig sonur hennar. Hún hét Guðfinna Grímsdóttir og var Dagbóbert sonur hennar og fyrra manns hennar, Hans Gíslasonar bónda á Gufuskálum, en hann drukknaði þar í lendingu 25. febrúar 1880.  - Sigurvin Hansson, gamall sjómaður á Ísafirði, var albróðir Dagóberts. Bræðurnir Sigurður og Hjörtur eru frá seinna hjónabandi Guðfinnu og Magnúsar Sigurðssonar, er bjuggu í Keflavík. Guðmundur Hákonarson var bróðir Einars í Klettsbúð, þá bóndi og ekkjumaður á Stóru-Hellu. Dagóbert var tengdasonur hans og bjó þar hjá honum, en var búinn að missa konuna. Hann dó frá tveim smábörnum.  Guðmundur Hákonarson var gamall formaður og góður sjómaður eins og hann átti kyn til.  Dagóbert var háseti hans, en af einhverjum ástæðum reru þeir ekki þennan dag, heldur fengu skiprúm hjá Lofti í forföllum annarra. Guðmundur reri jafnan skipi því, er Rauðseyingur hét, mestu happafleytu. Hvernig á því nafni stóð, veit ég ekki, en trúlegast er, að það hafi verið innan úr eyjum. Rauðseyingur mun hafa verið smíðaður af Jóni bónda Jónssyni í Rauðseyjum, en hann smíðaði margt róðrarskipa á árunum 1870-1890. Rauðseyingur komst síðan í eign Ólafs Jóhannessonar formanns á Sandi, tengdasonar Guðmundar Hákonarsonar. Var hann ávallt talinn happafleyta. Kunnugir segja, að Guðmundur hafi ekki róið á skipi sínu vegna þess, að honum var vant tveggja háseta, sem fengið höfðu leyfi hans um morguninn til þess að fara inn í Ólafsvík þennan dags.

Í dagbók frá þessum árum, sem rituð er á Sandi, segir höfundurinn, að það hafi verið áhrifamikil sjón að sjá 40 menn taka grafir að þessum drukknuðu mönnum í Ingjaldshólskirkjugarði í hvössum útsynnings éljagangi. Jarðarförin var fjölmenn og áhrifamikil. Allir formenn verstöðvanna fylgdu starfsbróður sínum og sjómennirnir þögulir og djúpt snortnir stóðu yfir moldum félaga sinnar. Alvöruþunginn var mikill yfir þessari stund. Sorgin einlæg."

Kafli úr bókinni „Breiðfirzkir sjómenn", fyrra bindi, eftir Jens Hermannsson, útgefandi Skuggsjá, önnur útgáfa 1976, bls. 119 - 121.

ÓKÓ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband