Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
24.7.2008 | 20:14
Sameiginlegt RISA Grill
Búið er að útvega mjög stórt kolagrill sem sett verður upp við samkomutjaldið. Allir geta nýtt sér grillið og slegið í púkk með því að koma með poka af kolum. Það bragðast miklu betur á kolagrilli
Nefndin
21.7.2008 | 11:36
Dagskrá og aðrar gagnlegar upplýsingar
Kæra Fjölskylda.
Í enda þessarar viku fáum við tækifæri til að hittast á ættarmótinu á Hellissandi.Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar stefnir í fantafína mætingu.
Búið er að útvega um 40m2 tjald sem komið verður fyrir á tjaldstæðinu og hægt að nota til samverustunda.
Þá er búið að safna lögum á söngbók ásamt öðrum gagnlegum upplýsingum.
Búið er að skipuleggja stutta skoðunarferð um nesið undir leiðsögn Ó.K.Ó
Eins og síðast verða gerð barmmerki til auðkennis um frá hvaða fjölskylduarmi viðkomandi tilheyrir.
Hjálagt fylgir svo dagskrá sem stuðst verður við eftir fremsta megni.
ATH: Þeir sem kunna gítargrip eru hvattir til að mæta með gítarinn með sér.
DAGSKRÁ:
Föstudagur:20:00 Grilltími
21:00 Leikir á túni með krökkum og fullorðnum
22:00 Söngur í tjaldi
Laugardagur:11:00-Ávarp mótsgesta við tjald
11:15- Skoðunarferð um Hellnar og þjóðgarðinn undir leiðsögn Ólafs K. Ólafs.
15:30- Komið til baka úr skoðunarferð
17:00 -Leikir á túni með krökkum og fullorðnum
19:00-Grilltími
21:00-Söngur í tjaldi
Aðeins eitt herbergi er laust á Hótel Hellissandi og því um að grípa gæsina.
Sjáumst hress.
Nefndin
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.4.2008 | 20:38
Ingjaldshólskirkja
Í Ingjaldshólskirkju er gjöf frá Björg Guðmundsdóttur og Ólafi Jóhannessyni og önnur frá syni þeirra Jóhannesi Ólafssyni. Þessara gjafa er getið í máldögum kirkjunnar.
Í vísitasíu Ásmundar biskups Guðmundssonar frá 31. júlí 1958 segir:
Ljósahjálmur úr kopar ... sextánarma, gjöf frá Ólafi Jóhannessyni fisksala í Reykjavík og konu hans, Björgu Guðmundsdóttur, gefinn 1953 en kemur í kirkjuna 1954." Heimild: Jökla hin nýja I. Úr sögu Breiðuvíkurhrepps og Neshrepps utan Ennis. Kirkjur undir Jökli. Ólafur Elínmundarson tók saman. Bls. 216. Útg. 2000.
Í 2. vísitasíu Sigurðar prófasts Lárussonar frá 20. september 1960 segir:
Hjálmur úr brenndum kopar með 16 ljósastæðum, verkleg og vegleg gjöf. Gefendur hjónin Ólafur Jóhannesson og frú hans, Björg Guðmundsdóttir. Hjón þessi voru þá búsett í Reykjavík.
Tvær ljósasúlur, sín hvoru megin við altarið, gefnar af Jónannesi Ólafssyni, syni framannefndra hjóna í Reykjavík." Sama heimild, bls. 218.
Í vísitasíu Magnúsar prófasts Guðmundssonar frá 3. september 1963 segir:
Þriðji ljósahjálmurinn er úr brenndum kopar með 16 ljósastæðum. Veglegur gripur. Gefnir kirkjunni 1955 af hjónunum Ólafi Jóhannessyni og frú Björg Guðmundsdóttur. " Sama heimild, bls. 220.
Ingjaldshólskirkja var byggð árið 1903. Nýtt safnaðarheimili kirkjunnar var vígt 19. október 1997. Af því tilefni gáfu Jóhannes Ólafsson og Ingveldur Valdimarsdóttir kirkjunni peningaupphæð og málverk með mynd af Snæfellsjöklli, sem hangir uppi í safnaðarheimilinu.
ÓKÓ
Vinir og fjölskylda | Breytt 9.4.2008 kl. 08:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2008 | 14:47
Frásögn af sjóslysinu í Keflavíkurlendingu 9. febrúar 1909
Í kaflanum, sem hér fer á eftir, segir frá því þegar Guðmundur Hákonarson og Dagóbert Hansson drukknuðu í Keflavíkurlendingu 1909, ásamt sjö öðrum sjómönnum.
Björg amma sagði mér frá því þegar hún horfði á pabba sinn drukkna þarna, nánast handarlengd frá öllu fólkinu, sem horfði á - en gat ekkert gert. Ég skildi frásögn ömmu ekki til fulls fyrr en ég stóð í fyrsta sinn við Keflavíkurlendinguna og gerði mér grein fyrir aðstæðum. Keflavíkurlendingin sést ágætlega á myndinni hér á síðunni - en maður gerir sér ekki grein fyrir aðstæðum nema standa við lendinguna.
Drukknun Lofts Loftssonar.
Hinn 9. febrúar 1909 fórst Lofur Loftsson formaður úr Keflavík með öllum mönnum sínum, 9 manns. Norðanveður skall á með miklum sjó, en vestan undirsjór á móti og veðurhæð mikil. Tveir formenn eru nefndir af þeim sem á sjó voru úr Keflavík þennan dag, og má segja, að legið hafi þar við tveim bátstöpum sama daginn.
Báðir bátarnir voru að koma af sjó. Fyrri báturinn var María frá Skáleyjum og var formaðurinn Sveinn Jónsson, sá sem veturinn áður hraktist inn að Hallbjarnareyri og náði þar nauðulega landi, og er fyrr frá sagt. Í Keflavík er lending mjög þrönd, svo að fyrir augum ókunnugra má það varla lending kalla. Klappir eru þar til beggja hliða, og innsiglingin mjög þröng, litlu meiri en bátsbreiddin. Áður fyrri var klöpp þvert yfir lendingu, sem Þröskuldur hét, en hefur nú verið sprengd í burtu að mestu. Austari klöppin er stærri og hærri og heitir Höfuð, en það var einmitt á því sem báðir þessir bátar steyttu. Auk þess er það mikill ókostur á lendingunni, hve langt brýtur fram í brimum, og er það allvarasamt.
Að þessu sinni var hásjávað og Höfuðið í kafi og braut á því. Meðan Sveinn Jónsson stýrði til lendingarinnar, beið Lofur frammi á legunni, því ókleyft er fyrir fleiri báta en einn að lenda þar í senn. Sveinn var öruggur stjórnari og ágætur sjómaður, en hér mátti engu skeika. Vestansjórinn ýfði norðan-báruna og gerði þannig miklu erfiðara fyrir. Fara varð þétt upp með Höfðinu til þess, að ekki bæri yfir á klappirnar að vestanverðu, en þær voru þá svo nærri sjórnborðs megin, að nálega mátti engu skeika. Tók nú Sveinn róðurinn. Í hálsi voru þeir Bergþór Einarsson úr Hvallátrum og Hafliði Pétursson frá Svefneyjum, sem reri á bakborða, hinn röskvasti maður. Renndi nú María upp að Höfðinu, en í því rann að öfugriða vestan frá og bar kinning bátsins upp að klöppinni. Þetta sá Hafliði. Vatt sér þegar út á Höfuðið og réði bátnum frá klöppinni, en stökk síðan upp í. Varð þetta knálega handtak til þess að bjarga skipi og skipshöfn úr bráðum voða.
Þegar Loftur lenti rétt á eftir, fór á sömu leið. Vestansjórinn vék bátnum úr réttri stefnu, svo að hann barst upp klettinn. Brimróður í Keflavík var tekinn, þegar ,,dregið var út úr lónum", þ.e. þegar útsoginu var lokið eftir síðasta ólagið. En hér var enginn Hafliði Pétursson til að bjarga með snarræði sínu og hvolfdi bátnum ofan í lendinguna. Nú eru ekki nema fáir faðmar frá fjörunni og fram á Höfuðið, en nógu langt til þess, að engum mannanna tókst að bjarga. Bátur var settur fram, bólum var kastað til þeirra, en engum þeirra tókst að ná til þeirra, og voru þeir þó þarna í brimlöðrinu innan um þau. Loftur, formaðurinn, komst einn á kjölinn, en heldur ekki honum varð bjargað. Barst báturinn vestur á klappirnir vestan til við lendinguna, en þangað var hverjum bát ófært og úr landi varð engum vörnum við komið. - Þarna lét Loftur líf sitt fyrir augum þorpsbúa, sem flestir höfðu safnazt þarna, eins og negldir niður, dæmdir til að vera sjónarvottar þessa ömurlega harmleiks. Það er ægileg stund fyrir fólkið í litlu sjávarþorpi, þegar slík stórslys verða rétt við landsteinana og engum vörnum verður við komið, hendurnar máttvana, hugirnir ráðþrota, en ógnin og ofvænið halda augunum föstum við hinn voveiflega atburð eins og í dáleiðsludraumi.
Í sögu Hellissands hafa slík augnablik orðið mörg gegn um aldirnar, en þrátt fyrir það ótrúlega fá, þegar allar aðstæður eru athugaðar og þess gætt, hve fjölsóttar þessar verstöðvar foru, hve útbúnaður allur var frumstæður, lendingar hættulegar og aðalsjósóknin bundin við þá árstíð, sem jafnan er stórbrotnust að veðráttufari.
Loftur lét líf sitt án allrar æðru. Til hans heyrðist hvorki óp né andlátsstuna. ,,Þetta voru ægileg augnablik", sagði einn af sjónarvottunum, ,,maðurinn var svo nærri okkur, að við sáum augun í honum, en ekkert var hægt að gera".
Þeir, sem fórust voru þessir: Loftur Bergur Loftsson, Keflavík, kvæntur, 29 ára, Kristján Jónsson, Vörðufelli, ókvæntur, 30 ára, Guðmundur Hákonarson, ekkjumaður, Keflavík, 55 ára, Dagóbert Hansson, ekkjumaður, Keflavík 29 ára, Sigurður Magnússon, kvæntur, 23 ára, Kristján Guðmundsson, ókvæntur, Keflavík, 25 ára, Þorkell Guðbrandsson, ekkjumaður, Keflavík, 47 ára, Hjörtur Magnússon, Beruvík, ókvæntur, 20 ára, Guðjón Nikulásson, ókvæntur, Reykjavík, 23 ára. Lík allra þessara manna fundust og voru jörðuð á Ingjaldshóli, nema lík Guðjóns, það fannst ekki.
Eins og sést af þessari nafnaskrá, voru flestir þessara manna kornungir; var þetta því mjög tilfinnanlegt manntjón fyrir byggðarlagið.
Sigurður og Hjörtur Magnússynir voru albræður, synir fátækrar ekkju þar í Keflavík, en Dagóbert hálfbróðir þeirra, einnig sonur hennar. Hún hét Guðfinna Grímsdóttir og var Dagbóbert sonur hennar og fyrra manns hennar, Hans Gíslasonar bónda á Gufuskálum, en hann drukknaði þar í lendingu 25. febrúar 1880. - Sigurvin Hansson, gamall sjómaður á Ísafirði, var albróðir Dagóberts. Bræðurnir Sigurður og Hjörtur eru frá seinna hjónabandi Guðfinnu og Magnúsar Sigurðssonar, er bjuggu í Keflavík. Guðmundur Hákonarson var bróðir Einars í Klettsbúð, þá bóndi og ekkjumaður á Stóru-Hellu. Dagóbert var tengdasonur hans og bjó þar hjá honum, en var búinn að missa konuna. Hann dó frá tveim smábörnum. Guðmundur Hákonarson var gamall formaður og góður sjómaður eins og hann átti kyn til. Dagóbert var háseti hans, en af einhverjum ástæðum reru þeir ekki þennan dag, heldur fengu skiprúm hjá Lofti í forföllum annarra. Guðmundur reri jafnan skipi því, er Rauðseyingur hét, mestu happafleytu. Hvernig á því nafni stóð, veit ég ekki, en trúlegast er, að það hafi verið innan úr eyjum. Rauðseyingur mun hafa verið smíðaður af Jóni bónda Jónssyni í Rauðseyjum, en hann smíðaði margt róðrarskipa á árunum 1870-1890. Rauðseyingur komst síðan í eign Ólafs Jóhannessonar formanns á Sandi, tengdasonar Guðmundar Hákonarsonar. Var hann ávallt talinn happafleyta. Kunnugir segja, að Guðmundur hafi ekki róið á skipi sínu vegna þess, að honum var vant tveggja háseta, sem fengið höfðu leyfi hans um morguninn til þess að fara inn í Ólafsvík þennan dags.
Í dagbók frá þessum árum, sem rituð er á Sandi, segir höfundurinn, að það hafi verið áhrifamikil sjón að sjá 40 menn taka grafir að þessum drukknuðu mönnum í Ingjaldshólskirkjugarði í hvössum útsynnings éljagangi. Jarðarförin var fjölmenn og áhrifamikil. Allir formenn verstöðvanna fylgdu starfsbróður sínum og sjómennirnir þögulir og djúpt snortnir stóðu yfir moldum félaga sinnar. Alvöruþunginn var mikill yfir þessari stund. Sorgin einlæg."
Kafli úr bókinni Breiðfirzkir sjómenn", fyrra bindi, eftir Jens Hermannsson, útgefandi Skuggsjá, önnur útgáfa 1976, bls. 119 - 121.
ÓKÓ
Vinir og fjölskylda | Breytt 28.3.2008 kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2008 | 14:44
Rauðseyingur
Hér að neðan er lítil frásögn úr bók Karvels Ögmundssonar Sjómannsævi", um Rauðseying, bát Ólafs Jóhannessonar, afa míns.
Það var trú manna að Rauðsetingur rataði sjálfur í Keflavíkurlendinguna, þá mikið brim var. Svo mikill snillingur var Guðmundur [Hákonarson] sem stjórnandi á rúmsjó og í brimlendingu. Hann þurfti aldrei að snúa frá lendingu og farnaðist alltaf vel, en örlög hans urðu þau að farast sem háseti í þeirri lendingu sem hann hafði áður alltaf sigra sem stjórnandi. Þannig myndaðist þjóðtrúin um ratvísi Rauðseyings. Guðmundur fórst með Lofti Loftssyni, svo sem að framan getur." Karvel Ögmundsson Sjómannsævi" II bindi, bls. 50, útg. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf. 1982.
ÓKÓ
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 18:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2008 | 20:36
GESTABÓK
Við sjáum að það eru margir sem kíkja inn á síðuna. Við hvetjum ykkur til að skrá ykkur í gestabókina. Frábært framtak hjá Ó.K.Ó að setja inn allt þetta efni. Endilega skrifið færslur beint á síðuna og bætið við efni.
notandi:olafsbjorg
lykilorð:framnes
-Nefndin
Hér að neðan má sjá upplýsingar um flettingar á síðunni og aðrar upplýsingar.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.3.): 22
- Sl. sólarhring: 40
- Sl. viku: 459
- Frá upphafi: 1036
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 103
- Gestir í dag: 7
- IP-tölur í dag: 6
14.3.2008 | 20:45
Myndir og nýtt efni
Ég hef sett myndir á vefinn frá ættarmótinu 2005 og myndir frá Keflavíkurlendingunni og Krossavík.
Á sjómannadeginum 2007 var vígður minnisvarði í kirkjugarði Ingjaldshólskirkju til minningar um sjómennina 9, sem drukknuðu í Keflavíkurlendingu 1909. Guðlaug Karvelsdóttir hafði veg og vanda af því að minnisvarðinn var reistur.
Á sama degi gaf Ingveldur Valdimarsdóttir (Inga hans Jóa) slysavarnardeildinni á Hellissandi rausnarlega gjöf til minningar um mann sinn Jóhannes Ólafsson. Gjöfin var afhent við hátiðlega athöfn í sjómannagarðinum á Hellissandi. Við báðar þessar athafnir mætti fjöldi ættingja okkar og hef ég sett inn nokkrar myndir frá sjómannadeginum 2007.
Ólafur Jóhannesson, maður Bjargar Guðmundsdóttur, var einn af stofnendum Slysavarnardeildarinnar Bjargar á Hellissandi árið 1928 og fyrsti formaður hennar. Í Morgunblaðinu 1998 birtist frétt í tilefni af 70 ára afmæli slysavarnardeildarinnar. Ég hef sett hana hér á síðuna
Í ræðu, sem þáverandi formaður slysavarnardeildarinnar hélt við komu björgunarbátsins Bjargar í Félagsheimilinu Röst, sagði hann, að Bjargarnafn slysavarnardeildarinnar og björgunarbátsins væri nafn konu fyrsta formanns deildarinnar.
Á ættarmótinu 2005 dreifði ég blaði með með nokkrum upplýsingum um rætur okkar. Ég hef einnig sett það á vefinn.
ÓKÓ
p.s. eigum við ekki að skrifa beint á síðuna - ekki í gestabókina. Þá er hægt að gera athugasemdi við hverja færslu ef ástæða er til.
Vinir og fjölskylda | Breytt 15.3.2008 kl. 23:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2008 | 19:31
Ættarmótið 2005
Blað, sem dreift var á ættarmótinu 2005:
Niðjamót Bjargar Guðmundsdóttur og Ólafs Jóhannessonar frá Stóru Hellu, Hellissandi, 15. til 17. júlí 2005Upplýsingar fyrir þá, sem fara í ferð frá Görðum til Hellissands, laugardaginn 16. júlí. Ef farið er um Fróðárheiði er leiðin 43 km.
Frá Hellissandi hefur sjór verið sóttur frá fyrstu öldum byggðar á Íslandi. Skammt undan landi eru fengsæl fiskimið. Ströndin er hins vegar hömrum girt og því erfitt að lenda bátum á henni. Bátar lentu á tveimur stöðum við Hellissand; í Keflavík og í Brekknalendingu. Í byrjun 20. aldarinnar var gerð höfn í Krossavík við Hellissand, sem notuð var fram yfir miðja öldina þegar hún lagðist af.
Talið er að ein fyrsta þéttbýlismyndum á Íslandi hafi verið á Hellissandi enda sótti fólk þangað víða að til sjósóknar.
Á utanverðu Snæfellsnesi eru núna þrjár hafnir; í Ólafsvík, í Rifi og á Arnarstapa.
Niðjar Bjargar Guðmundsdóttur og (Kristófers) Ólafs Jóhannessonar, frá Stóru Hellu, Hellissandi, tengjast Keflavík, Brekknalendingu og Krossavík.
Keflavík
Guðmundur Hákonarson, faðir Bjargar, var formaður á bát sínum Rauðseyingi". Einn háseta hans var Dagóbert Hansson, tengdasonur hans. Hinn 9. febrúar 1909 hætti Guðmundur við að róa á bát sínum en þess í stað fóru þeir í róður á öðrum bát. Alls fóru 9 menn í þann róður.
Þegar leið á daginn skall á norðanveður með miklum sjó. Þegar lent var í Keflavík skall báturinn á Höfðinu", kletti austanmegin í Keflavíkurlendingu. Allir 9 mennirnir fórust fyrir augum eiginkvenna sinna og barna, sem stóðu í fjörunni og gátu ekkert gert til hjálpar.
Eitt þeirra barna, sem horfði á föður sinn drukkna, var Björg Guðmundsdóttir.
Brekknalending
Rauðseyingur" komst síðar í eigu Ólafs Jóhannessonar, tengdasonar Guðmundar Hákonarsonar. Ólafur gerði út frá Brekknalendingu. Í brekkunni vestanmegin í lendingunni var bátur Ólafs festur við hæl; báturinn var bókstaflega hengdur upp á hælinn. Til skammst tíma mátti sjá hælinn - og má ef til vill enn. Ólafur Jóhannesson byggði skemmu við Brekknalendinu.
Krossavík
Þegar mótórbátar komu til sögunnar í byrjun 20. aldar gerðu Sandarar höfn í Krossavík; Krossavíkurhöfn. Höfnin var hins vegar erfið og var hún ekki notuð nema í um 30 ár. Einn þeirra sem stóðu að hafnargerðinni var Ólafur Jóhannesson. Þaðan gerði hann út bát sinn Skrauta". Við Krossavík er upplýsingaskilti með ljósmynd af bátum í höfninni, þar sem sjá má bátinn Skrauta".
Í sjóminjagarðinum á Hellissandi eru geymdar vélar úr mótórbátum. Ein þeirra er úr Skrauta" (sú er stendur lengst til vinstri af þeim sjö sem standa úti í garðinum).
Ingjaldshólskirkja
Í kirkjunni á Ingjaldshóli hangir uppi sextánarma ljósahjálmur úr kopar. Um hann segir í vísitasíu biskups 31. júlí 1958: ... gjöf frá Ólafi Jóhannessyni fisksala í Reykjavík og konu hans, Björgu Guðmundsdóttur, gefinn 1953 en kemur í kirkjuna 1954." Vísitasía biskups er góð heimild um gjöfina en í kirkjuna sjálfa vantar skjöld með áletrun um gjöfina.
Björgunarsveitin Björg Hellissandi
Á Hellissandi starfar Björgunarsveitin Björg". Hún var stofnuð á árið 1928. Einn af stofnendum hennar og fyrsti formaður var Ólafur Jóhannesson. Nafn björgunarsveitarinnar er nafn Bjargar Guðmundsdóttur, eiginkonu Ólafs Jóhannessonar.
Haldið var upp á 70 ára afmæli Björgunarsveitiarinnar Bjargar" á Hellissandi 13. desember 1998 á dánardegi Ólafs Jóhannessonar árið 1955. Viðstödd voru Anna Margrét, dóttir Ólafs, og Ólafur Kristófer Ólafsson, dóttursonur Ólafs Jóhannessonar.
ÓKÓ
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 21:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2008 | 19:13
Slysavarnadeildin Björg
Morgunblaðið föstudaginn 11. desember, 1998.
Slysavarnadeildin Björg 70 ára
Slysavarnadeildin Björg 70 ára Hellissandi-Um þessar mundir eru 70 ár liðin frá þvi að Slysavarnadeildin Björg á Hellissandi var stofnuð. Deildin er því jafngömul sjálfu Slysavarnafélagi Íslands. Stofnun deildarinnar var tilkynnt Slysavarnafélagi Íslands sem þá var nýstofnað 8. desember 1928.
Slysavarnadeildin Björg 70 ára
Hellissandi - Um þessar mundir eru 70 ár liðin frá þvi að Slysavarnadeildin Björg á Hellissandi var stofnuð. Deildin er því jafngömul sjálfu Slysavarnafélagi Íslands. Stofnun deildarinnar var tilkynnt Slysavarnafélagi Íslands sem þá var nýstofnað 8. desember 1928. Björg mun því vera þriðja elsta slysavarnadeild landsins af þeim sem enn starfa.
Þegar stofnað var til SVFÍ 1928 vaknaði strax mikill áhugi á Hellissandi fyrir því að taka þátt í starfsemi félagsins. Tíð sjóslys hér við strendurnar hafa þar vafalaust valdið mestu. Fyrsti formaður Bjargar var Ólafur Jóhannesson skipstjóri og hafnsögumaður, síðar fisksali í Reykjavík. Svo skemmtilega vill til að hann er afi Ólafs K. Ólafssonar sýslumanns Snæfellinga.
En líklega hefur enginn maður markað dýpri spor í því að halda þessu félagsstarfi lifandi öll þessi ár, þrátt fyrir andvaraleysi og stundum minnkandi áhuga fyrir slysavörnum, en Benedikt S. Benediktsson kaupmaður. Á Hellissandi hefur stjórn slysavarnadeildarinnar alla tíð farið með yfirstjórn björgunarsveitarinnar. Leifur Jónsson, hafnarvörður í Rifi, tók að sér að halda merki deildarinnar á lofti eftir að Benedikt hætti.
Afmælishátíð 13. desember
Stjórn Slysavarnadeildarinnar Bjargar hyggst minnast þessara merku tímamóta 13. desember nk. með veglegum hætti, því menn eru stoltir af því að deildin skuli vera jafngömul SVFÍ sjálfu. Ætlunin er að hátíðahöldin hefjist með messu í Ingjaldshólskirkju kl. 13, þar sem björgunarsveitin og unglingadeildin munu klæðast búningum sínum og standa heiðursvörð með fána SVFÍ og íslenska fánann. Að messu lokinni verður haldið að Björgunarstöðinni Líkn, höfuðstöðvum deildarinnar, og nýja tækjageymslan vígð. Má segja að þar með sé lokið síðasta áfanga byggingar björgunarstöðvarinnar sem er myndarlegt hús og til mikils sóma fyrir deildina.
Í nýju tækjageymslunni verður komið upp sýningu, þ. á m. myndum úr starfi deildarinnar og sýningu á tækjabúnaði hennar. Þá verður nýi björgunarbáturinnn, Björg, til sýnis í Rifshöfn og gestum verður gefinn kostur á að sigla með honum um höfnina og e.t.v. lengra ef veður leyfir. Bíll deildarinnar verður notaður til að flytja fólk á milli ef það óskar þess.
Veitingar og sagan sögð
Meðan á sýningunni stendur í Líkn verður kaffiveitingar í boði. Afmælishúfur verða seldar og vakin verður athygli á söfnun björgunarbátasjóðs SVFÍ. Afmælishátíðinni lýkur svo með flugeldasýning kl. 17. Slysavarnamenn á Hellissandi vonast til að sem flestir sjái sér fært að taka þátt í afmælishátíð Bjargar þennan dag, 13. desember nk., sérstaklega heimafólk og þeir gestir aðrir sem boðið verður til afmælisins.
Morgunblaðið/Ólafur Jens Sigurðsson BJÖRGUNARSTÖÐIN Líkn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2008 | 10:26
Hellissandur
Sælir ættingjar.
Gott framtak hjá nefndinni að koma þessari síðu upp.
Fór út á Hellissand í gær á slóðir ættfeðra og -mæðra okkar. Bjart veður, en kalt, snjór á jörðu. Gekk út í Krossavík, þar sem Ólafur afi hafði bát sinn Rauðseying eftir að hann hætti að nota Brekknalendinguna. Skoðaði það sem eftur stendur af hafnarmannvirkjunum á blásandi fjöru. Kom einnig við í lendingunni Keflavík, þar sem Guðmundur Hákonarson, langafi, drukknaði 1909 ásamt 8 öðrum sjómönnum þ.á.m. Dagóbert tengdasyni sínum. Þessa staði, og fleiri, getum við skoðað í sumar. T.d. er gaman, að fara að Gufuskálum og skoða Gufuskálavör og fiskbyrgin þar rétt hjá. Árið 1998 tók ég þátt í því að moka sandi upp úr Ískrabrunni, sem er rétt hjá Gufuskálavör, og tók þátt í fornleifauppgreftri við Írskubúðir. Síðast þegar ættarmót var haldið á Hellissandi fórum við í fallegu sandfjöruna í Skarðsvík. Ef við höldum áfram veginn, sem liggur út í Skarðsvík, komum við út á Öndverðarnes. Þar er brunnurinn Fálki, eitt af sárafáum vatnsbólum á þessu svæði, rústir verbúða og ótúleg lending.
Nefndin hefur því úr mörgum stöðum að velja þegar hún skipuleggur dagskránna. Bendi einnig á síðurnar http://www.hellissandur.is og http://www.ust.is/Natturuvernd/Thjodgardar/Snaefellsjokull/ - heimasíða Þjóðgarðsins Snæfellsjökull - á þessum síðum er ýmsan fróðleik að finna.
Það var góð ákvörðun hjá nefndinni, að velja Hellissand að þessu sinni. Gaman veður að hittast öll í sumar.
Kveðja
Ólafur K. Ólafsson
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)